Auglýsingastofan Brandenburg fékk til sín liðsstyrk á dögunum þegar Högni Valur Högnason var ráðinn sem Associate Creative Director.

Högni útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur meðal annars starfað hjá H:N markaðssamskiptum þar sem hann hafði umsjón með hönnunar- og hugmyndastjórnun hjá stofunni ásamt því að koma að skipulags- og verkefnatjórnun.

Nýverið bættist Íslandsbanki í kúnnahóp Brandenburg og er ráðning Högna liður í að efla hóp stofunnar enn frekar en nú vinna rúmlega 30 manns á stofunni að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Við erum virkilega glöð með að hafa nælt okkur í Högna og það sést strax að hann smellpassar hér inn. Það er nóg að gera og því gott að fá öfluga viðbót,“ segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburg. Högni er fyrrverandi formaður Félags íslenskra teiknara og er í dag fulltrúi grafískrar hönnunar í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands.