„Þegar við hjónin keyptum hlutinn í Hampiðjunni þá hugsuðum við fjárfestinguna til langs tíma og fannst fyrirtækið verulega vanmetið á markaði.“ segir Hjörleifur Jakobsson. Hann á félagið Feier ehf með konu sinni Hjördísi Ásberg. Í gær var tilkynnt um sölu félagsins á 13,72% hlut þess í Hampiðjunni fyrir 1.371 milljón króna. Kaupendur voru fagfjárfestar hjá Eignarstýringu fagfjárfesta Arion banka. Stærsti kaupandinn er Frjálsi lífeyrissjóðurinn á eftir viðskiptin á 5,6% hlut í Hampiðjunni. Aðrir í kaupendahópnum eiga minna en 5%.

Feier ehf keypti hlut í Hampiðjunni árið 2012. Á þeim tíma stóð gengi hlutabréfa Hampiðjunnar í um 9 krónum á hlut. Sölugengið í gær var hins vegar 20 krónur á hlut. Þetta svarar til þess að gengi hlutabréfanna hafi hækkað um 122% á tveimur árum.

Ætla má að hagnaður Feier ehf af sölunni á hlutabréfunum í Hampiðjunni er því tæpar 760 milljónir króna. Við það bætast arðgreiðslur upp á um 60 milljónir króna á síðastliðnum tveimur árum.