*

fimmtudagur, 2. júlí 2020
Innlent 18. maí 2019 11:01

Högnuðust á bankakreppunni

Framkvæmdastjóri Fossa markaða í London var meðeigandi Rogge Global Partners sem sá um að ávaxta 7.000 milljörðum króna.

Ingvar Haraldsson
David Witzer, framkvæmdastjóri Fossa markaða í London.
Haraldur Guðjónsson

David Witzer, framkvæmdastjóri Fossa markaða í London, er fæddur og uppalinn í London og hefur lifað og hrærst í bresku fjármálakerfi í áratugi. Hann var meðeigandi og einn af stjórnendum sjóðstýringafyrirtækisins Rogge Global Partners Ltd., sem var selt til Allianz árið 2016. Fyrirtækið var með 130 starfsmenn og 60 milljarða dollara í stýringu, ríflega 7.000 milljarða íslenska króna, og sérhæfði sig í viðskiptum með skuldabréf. „Það voru bara níu manns að vinna þarna þegar ég byrjaði og með innan við milljarð dollara í eignastýringu. Það minnir að mörgu leyti á stöðuna hjá Fossum núna,“ segir Witzer.

Högnuðust á bankakreppunni

„Ég var hjá Rogge í 22 ár og gerði nokkurn veginn allt nema sjá um fjárfestingar,“ segir Witzer. Gengið hafi á ýmsu við uppbyggingu fyrirtækisins en hann sé sáttur hvernig til hafi tekist. Mikið traust hafi verið borið til fyrirtækisins og þess vegna hafi margir fjárfestar leitað til þeirra með eignir sínar í bankakreppunni árið 2008.

„Margir af keppinautum okkar tóku mikla áhættu en við reyndum að forðast það. Eignasöfnin voru klæðskerasniðin að hverjum og einum svo það voru engir tveir viðskiptavinir með sama eignasafnið. Við reyndum að nálgast hlutina þannig að við værum að veita hverjum fyrir sig sem besta þjónustu. Þegar höggið kom vorum við álitin traustur og góður samstarfsaðili svo það voru margir sem fluttu eignir í stýringu til okkar frá öðrum fyrirtækjum. Þó að við hefðum ekki haldið öllum þessum eignum í stýringu til frambúðar kom það okkur engu að síður vel. Ein af ástæðunum fyrir því að ég gekk til liðs við Fossa voru að gildi félagsins svipar til þess sem við vorum að gera,“ segir hann.

Witzer segir það ekki endilega hafa legið beint við að hann færi í fjármálageirann. „Minn árgangur í skólanum var sá fyrsti sem hafði starfsráðgjafa. Það var gamli íþróttakennarinn en hann hafði enga reynslu af starfsráðgjöf svo auðvitað stóð hann sig ekki mjög vel. Hann spurði mig tveggja spurninga: „Við hvað vinnur pabbi þinn og við hvað vinna pabbar vina þinna?“ Ég hugsaði, hvað kemur það málinu við?“

Því hafi verið lítið gagn af gamla íþróttakennaranum en Witzer segist hafa átt auðvelt með stærðfræði og viljað gera eitthvað tengt greininni. „Ég var líka með mjög góðan hagfræðikennara. Hann fékk okkur til að keppa í að búa til verðbréfasöfn og reyna að ná sem bestri ávöxtun. Þar vaknaði áhuginn á fjármálamörkuðum.“ Hann byrjaði feril sinn í fjármálageiranum hjá eignarstýringarfyrirtækinu M&G. „Við vorum tveir sem byrjuðum á svipuðum aldri hvor í sinni deildinni. Við nutum góðs af því að yfirmenn deildanna kunnu ekkert sérstaklega vel við hvor annan og voru í harðri samkeppni. Þeir vildu báðir sýna að þeir væru betri en hinn í sínu starfi með því að gera okkur að sem bestum starfsmönnum. Það var frábært og við lærðum mjög margt. Ég gerði eiginlega allt sem hægt er innan eignarstýringar og varð að lokum sjóðstjóri í skuldabréfum í þrjú ár,“ segir Witzer.

Nánar er rætt við Witzer í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.