FÍ fasteignafélag, sem er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða, hagnaðist um 1,3 milljarða á síðasta ári. Árið 2016 hagnaðist félagið um 739 milljónir. Hlutfallslega jókst hagnaður því um tæpt 81%.

Hreinar leigutekjur námu 574 milljónum króna en rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og fjármagnsgjöld nam 474 milljónum króna. Fjármagnsgjöld námu 459 milljónum króna og matsbreyting var jákvæð um 1.322 milljónir króna.

Heildareignir félagsins námu 10,6 milljörðum króna í lok ársins 2017 og jukust um rúma 1,3 milljarða frá því í lok árs 2016. Eigið fé nam samtals rúmlega 3,9 milljörðum og jókst einnig um rúma 1,3 milljarða. Skuldir námu því 6,9 milljörðum og hækkuðu um 0,1 milljarð á milli ára. Eiginfjárhlutfall í lok ársins nam 35,7% og hækkaði um 8,3 prósentustig á milli ára.

Handbært fé félagsins í upphafi árs nam 187 milljónum króna og meira en tvöfaldaðist á árinu en í árslok nam handbært fé 379 milljónum króna.