Johan Hendrik Egholm forstjóri Skeljungs og Johnni Poulsen forstóri dótturfélagsins P/F Magn, sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag keyptu hvor um sig bréf í félaginu á rúmar 74 milljónir hafa þegar selt stærstan hluta bréfanna aftur.

Tæplega 260% hagnaður á nokkrum klukkustundum

Fengu Færeyingarnir tveir hlutina á 2,82345 krónur hvern hlut samkvæmt kauprétti, en selja þá nú á 7,30 krónur hvern hlut. Það er ríflega 258% verðhækkun á nokkrum klukkutímum. Keypti hvor um sig 26.224.863 hluti, en nú hefur forstjóri Skeljungs selt alla nema 1.643.836 af sínum hlutum, meðan forstjóri Magn hefur selt alla sína hluti.

Seldu þeir hlutina á 7,30 krónur hvern hlut, eða fyrir rúmlega 179,4 milljónir í tilviki Johan Hendrik Egholm, sem sem stendur þá uppi með tæplega 105,4 milljónir króna hagnað eftir viðskiptin í dag. Heildarverðmæti hlutanna sem Johnni Poulsen seldi fyrir nemur ríflega 191,4 milljónum króna, svo hagnaður hans af viðskiptum dagsins nemur 117,4 milljónum. Heildarhagnaður þeirra félaga er því 222,8 milljónir króna.

Nýlega tilkynnti félagið um uppsögn 29 starfsmanna , og að vörumerkið Skeljungur hefði verið lagt niður.

Voru uppsagnirnar allt frá bensínafgreiðslumönnum á Skeljungstöðvunum, sem nú munu allar bera merki Orkunnar til skrifstofufólks. Í ársfjórðungsuppgjöri félagsins sem birt var í gær, kom fram að hagnaður félagsins dróst eilítið saman á þriðja ársfjórðungi, en í heildina jókst hagnaðurinn fyrstu 9 mánuði ársins um 6,1%.

Gengi bréfanna lækkaði eftir viðskiptin

Undir lok viðskiptadags hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 2,64% eða niður í 7,00 krónur hvert bréf en tilkynnt var um söluna stuttu fyrir lok viðskipta.

Framan af degi hafði gengi bréfanna þó hækkað og stóð það í 7,44 krónur í hádeginu, en nú er það komið niður fyrir það gengi sem bréfin voru á þegar viðskipti hófust í morgun, en lokagengið við lok markaða í gær var 7,19 krónur.