Hagar misnotuðu markaðsráðandi stöðu sína með því að selja mjólk og mjólkurvörur undir kostnaðarverði í verslunum Bónuss í verðstríði við Krónuna á árunum 2005 til 2006.

Þetta er niðurstaða rúmlega tveggja ára rannsóknar Samkeppniseftirlitsins. Það hefur því ákveðið að sekta Haga um  315 milljónir króna.

Í niðurstöðunni segir að Hagar hafi yfirburði í markaðshlutdeild. Í lok rannsóknartímabilsins var hlutdeild Haga um 50% á landinu öllu.

„Þessi hlutdeild Haga hefur vaxið mikið undanfarin ár á kostnað annarra keppinauta. Á höfuðborgarsvæðinu var félagið með um 60% markaðshlutdeild. Markaðshlutdeild keppinautanna var miklu mun minni. Í ljósi m.a. þessarar hlutdeildar er það mat Samkeppniseftirlitsins í málinu að Hagar séu í markaðsráðandi stöðu."

Tapið á verðstríðinu var um 700 milljónir

Í niðurstöðunni segir að brot Haga hafi átt sér stað í svonefndu verðstríði lágvöruverslana sem hófst í lok febrúar 2005 þegar Krónan í eigu Kaupáss kynnti allt að 25% verðlækkun á algengustu flokkum dagvara.

Bónust mætti samkeppninni með því m.a. að lækka verð á mjólk og mjólkurafurðum. „Hafa Hagar lýst því yfir í fjölmiðlum að tap þeirra af verðstríðinu hafi verið um 700 milljónir krónur," segir í niðurstöðunni.

Það er því mat Samkeppniseftirlitsins að í verðlagningunni hafi falist ólögmæt undirverðlagning og að háttsemin hafi verið til þess fallin að viðhalda og styrkja með óeðlilegum hætti stöðu Haga á markaðnum fyrir sölu á dagvörum í matvöruverslunum.

„Jafnframt sýnir rannsóknin að brotin voru umfangsmikil. Aðgerðir Haga voru til þess fallnar að útiloka helstu keppinauta, s.s. lágvöruverðsverslanir í eigu Kaupáss (Krónan) og Samkaupa (Nettó og Kaskó) frá samkeppni og þar með veikja þau fyrirtæki sem keppinauta á markaðnum," segir í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.