Unga konan sem fjármagnaði háskólanám sitt með því að athuga húdd og bretti Pontiac bifreiða hjá General Motors, gaf forstjórastól fyrirtækisins ekki sérstakan gaum fyrr en hún sat í honum 34 árum síðar. Mary Barra varð fyrst kvenna til að stýra einum af stærstu bílaframleiðendum heims og er talin valdamesta viðskiptakonan í heiminum í dag.

Mary Barra, forstjóri bílaframleiðandans General Motors (GM), á að baki glæstan feril í viðskiptalífinu. Hún skipar annað sæti á lista Fortune yfir valdamestu konur í heimi árið 2020 og fimmta sæti á lista Forbes yfir valdamestu konur í heimi árið 2019, efst kvenna úr viðskiptalífinu sem þar eiga sæti. Hún fetaði í fótspor föður síns þegar hún hóf störf hjá GM en það var þó aldrei markmið Mary að verða forstjóri.

Mary hefur starfað fyrir GM undanfarna fjóra áratugi, að undanskildum þeim tveimur árum sem hún lærði við Stanford háskóla, og hefur á þessum árum gegnt 15 ólíkum stöðum innan fyrirtækisins. Mary ræddi nýlega um starfsferil sinn á ráðstefnu nokkurri, en þar sagði hún þau tækifæri sem hún fékk snemma á ferli sínum, til að spreyta sig á fjölbreyttum sviðum innan fyrirtækisins, hafa hjálpað henni að finna hvar áhugi hennar lá.

Kvenlægur stjórnandi í karlaveldi

Mary er fyrsta konan sem leiðir GM. Hún var raunar fyrst kvenna til að verða forstjóri stærri bílaframleiðenda í heimi, en líkt og kunnugt er þykir bílaiðnaðurinn mjög karllæg atvinnugrein. Fyrir fram hefðu sennilega margir talið að kona þyrfti að búa yfir eða tileinka sér svokallaða „karllæga" eiginleika og stjórnunarstíl til að rísa til æðstu metorða í svo karllægum geira, en svo var ekki í tilfelli Mary.

Þvert á móti hefur Mary verið lýst sem hógværum, einlægum, umhyggjusömum og mannlegum leiðtoga, sem fólki þykir einstaklega gott að starfa með. Hún lætur teymi sitt njóta viðurkenningar fyrir árangur sem næst fremur en að eigna sér heiðurinn. Hún kærir sig lítið um að vera í sviðsljósinu og þykir óþægilegt að fólk þekki hana úti á götu. Þrátt fyrir hógværðina býr Mary yfir miklu sjálfstrausti sem hún lætur þó ekki mikið á bera. Látlaust sjálfstraust hennar er sagt gera hana traustsins verða í hugum fólks og skapa henni aðdáun og virðingu.

Mary telur sig hafa verið lánsama að hljóta svo mörg tækifæri, en hún rekur mörg þeirra tækifæra sem hún hefur fengið til þess áhuga sem hún sýnir fólki. Þannig telur hún tækifæri sín og frama helst byggja á því hvernig hún hefur markvisst stefnt að því að vinna hug og hjörtu samstarfsfólks. Hún hefur lagt sig fram um að skilja hvað fólki er mikilvægt, að höfða til bæði vitsmuna og tilfinninga þess, að efla það og virkja, og að tryggja að einstaklingarnir séu meðvitaðir um framlag þeirra til fyrirtækisins.

Úrelt ímynd iðnaðarins

Þegar Mary tók við forstjórastarfinu kom það henni á óvart hve mikla athygli það vakti að hún væri fyrsti kvenforstjórinn meðal stærri bílaframleiðenda. Hún skrifaði um upplifun sína í grein á LinkedIn og segist þar hafa komist að þeirri niðurstöðu að hugmyndir fólks um bílaiðnaðinn væru úreltar og í sumum tilfellum beinlínis rangar.

Hún bendir á að framgangur hennar í starfi hafi verið í krafti stjórnenda sem fyrir mörgum árum sáu ávinning í fjölbreytileika mannauðsins. Það hafi verið þeim að þakka að konur eins og hún gátu fundið tækifæri sem áður fyrr stóðu þeim ekki til boða. Hún segist þannig hafa fengið tækifæri til að þróa sig í starfi, mennta sig og stofna fjölskyldu.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .