Reiðhöll hestamannafélagsins Freyfaxa var seld á uppboði nú á dögunum. Kaupandinn er fasteignafélag Fljótsdalshéraðs. Kaupverðið er 22,5 milljónir en skuld upp á um 20 milljónir var félaginu sem átti höllina ofviða.

Á vef Eiðfaxa segir að deildar meiningar séu um hvers vegna þessi skuld var svo há sem um ræðir en á sínum tíma hafi verið gert átak í byggingum reiðhalla í kjölfar sölu eigna á Stóðhestastöðinni í Gunnarsholti. Þá lagði ríkið fram fé til reiðhallarbygginga víða um land og lögðu sveitarfélög í flestum landshlutum krónu í framlag á móti hverri krónu sem ríkið lagði til. Þannig var því háttað fyrir austan og félag um reiðhöllina á Iðavöllum var stofnað í eigu Freyfaxa og sveitarfélagsins.

Framlag kom frá ríki en það var lægra en áætlað var í upphafi vegna þess að hallirnar urðu fleiri á landsvísu en áætlað var og því skiptist potturinn á milli fleiri félaga. Þetta þýdda að framlag lækkaði frá ríki til reiðhallarinnar á Iðavöllum og þá að sama skapi lækkaði framlag sveitarfélagsins í hlutfalli við það. Þannig varð til um 13 milljóna skuld sem á endanum varð félaginu að falli.

Jafnframt hefur fé sem vilyrði var um að kæmi til frá ríkinu ekki skilað sér, en það átti að koma til vegna kaups félagsins á landi undir mótssvæði. Það land var keypt af ríkinu og rann andvirði þeirra kaupa í jarðarsjóð ríkisins, en vilyrðið var upp á að sama upphæð kæmi frá ríkinu til uppbyggingar á svæði Freyfaxa. Enn bólar ekkert á þessu fé.

Í samtali við Eiðfaxa segir Stefán Bogi Sveinsson forseti bæjarstjórnar að fé þetta sem vilyrði var fyrir hefði líklega getað bjargað því að svona fór. “Þessi kaup sveitarfélagsins eiga engu að breyta um aðgang hestamanna að reiðhöllinni, enda eru þessi kaup gerð í þeim tilgangi að tryggja hestamönnum aðstöðu til að stunda sína íþrótt. Núna verða þeir sem málið varðar að standa saman um nýtingu hallarinnar og sjá til þess að rekstrargrundvöllur hennar sé tryggur”