Eftirlaunaaldur í Frakklandi verður að öllum líkindum lækkaður ef marka má yfirlýsingar forsetans. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur nú gert opinberar áætlanir um að lækka eftirlaunaaldurinn í 60 ár fyrir ákveðna hópa á vinnumarkaði. Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti landsins, hækkaði aldurinn í 62 ár árið 2010 og mætti þá mikilli andstöðu meðal landa sinna. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa undanfarið varað við því að Frökkum kunni að reynast erfitt að standast áætlanir í ríkisfjármálum nema ráðist verði í frekari sparnaðaraðgerðir. Margir hafa því gagnrýnt ákvörðun Hollande um að ráðast í þessar breytingar nú.

Breytingarnar fela í sér að þeir sem byrjuðu að vinna við 18 ára aldur eða fyrr, mæður sem eiga þrjú börn eða fleiri og þeir sem eru atvinnulausir á efri árum fái að hefja töku lífeyris við 60 ára aldur í stað 62.

Áætlaður kostnaður vegna aðgerðanna er 1,1 milljarður evra árið 2013. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn fari í vaxandi og verði um 3 milljarðar evra árið 2017.