Frakklandsforseti, Francois Hollande, mun ræða hugsanlega þjóðnýtingu á stálveri í eigu Arcelor Mittal þegar hann hittir eiganda fyrirtækisins, Lakshmi Mittal. Arcelor Mittal hefur gefið frönskum stjórnvöldum frest fram á laugardag til að finna kaupanda að tveimur bræðsluofnum í borginni Florange, en fyrirtækið segir rekstur þeirra ekki lengur standa undir sér. Mittal vill hins vegar ekki selja allt stálverið þrátt fyrir að hafa fengið tvö tilboð í það.

Ákvörðun Mittal um að selja eða loka ellar bræðsluofnunum tveimur hefur vakið mikla reiði meðal franskra stjórnvalda og starfsmanna stálversins, en þar starfa um 2.000 manns. Iðnaðarráðherra Frakklands hefur sakað Arcelor Mittal um lygar og að sýna Frakklandi lítilsvirðingu. Vill ráðherrann meina að þegar Mittal keypti stálverið hafi það gefið loforð um að því yrði ekki lokað. Alls starfa 20.000 manns hjá Arcelor Mittal í Frakklandi.