Hollendingar höfnuðu í gær viðskiptasamningi Evrópusambandsins og Úkraínu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. 61,1% kjósenda sögðu nei en rúmir 38% já. Þetta kemur fram á vef Financial Times í morgun .

Kjörsóknin var heldur dræm, sem að hluta má rekja til veðurs í Hollandi undanfarið, en samkvæmt lögum landsins telst þjóðaratkvæðagreiðsla ekki gild ef kjörsókn er undir 30%. Óstaðfestar tölur herma að hún hafi verið 32.2%.

Þar sem einungis er um ráðgefandi þjóðaratkvæði að ræða, en ekki bindandi, þýðir niðurstaðan ekki að hollensk stjórnvöld þurfi að beita neitunarvaldi gegn samningnum hjá Evrópusambandinu.  Ótvíræð höfnun kjósenda setur þó töluverðan þrýsting á þingheim og verður að öllum líkindum fjallað um samninginn að nýju.

Boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslunnar eftir andstæðingar Evrópusambandið fengu yfir 450.000 manns til að skrifa undir kröfu þess efnis. Ný lög um ráðgefandi þjóðaratkvæði tóku gildi á síðasta ári og var þetta fyrsta kosningin sem fram fer á grundvelli þeirra.

Samkomulagið sem kosið var um fellir niður ýmsa tollamúrum og öðrum hindrunum í viðskiptum milli ESB og Úkraínu.  Í Úkraínu var fylgst grannt með þróun mála í Hollandi, enda mikið í húfi. Rússar eru mjög mótfallnir samningnum. Því er iðulega haldið fram að þegar Viktor Janúkovits, þáverandi Úkraínuforseti, hafnaði samningnum 2013, hafi það verið vegna þrýstings frá Rússum. Petro Pororshenko, núverandi forseti Úkraínu hefur gagnrýnt niðurstöðu kosninganna harðlega og kallaði hana árás á evrópsk gildi.