Hollendingar munu berjast gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) veiti Íslendingum fjárhagslega aðstoð, svo lengi sem Íslendingar bæta ekki tap hollenskra innistæðueigenda, að því er haft var eftir hollenska fjármálaráðherranum, Wouter Bos, á hollenskri sjónvarpsstöð í dag. Bloomberg-fréttastofan greinir frá þessu í dag.

Krafa Hollendinga hljóðar upp á sem svarar 1,7 milljörðum Bandaríkjadala. Um 120 þúsund Hollendingar eiga innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans í Hollandi.

Haft var eftir hollenska fjármálaráðherranum á Bloomberg að Hollendingar hefðu stuðning Breta og Þjóðverja í málinu „Sem betur fer höfum við valdamikla bandamenn eins og Breta og Þjóðverja sem glíma við sömu vandamál," sagði hann og vísaði til IMF og Icesave-málsins.

Hann gagnrýndi íslensk stjórnvöld og sagði að þau væru að sækjast eftir stuðningi frá IMF og öðrum Evrópuríkjum á sama tíma og þau neituðu að ábyrgjast innistæður þeirra sem hefðu lagt sparifé sitt inn á íslenska reikninga.