Hollenski fjármálaráðherrann krefst þess að ríkisstjórn Íslands skýri tafarlaust ákvörðun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, að neita að skrifa undir Icesave-frumvarpið.

Reuters fréttaveitan hefur eftir talsmanni fjármálaráðherrans að fljótt þurfi að berast skilaboð frá Íslendingum um hvað tekur við.

Ruud Slotboom segir að Íslendingar séu skuldbundnir til að borga Icesave skuldina og því sé ekki ásættanlegt að engin lausn á deilunni sé í sjónmáli.  Fyrsta verk hollenskra stjórnvalda verði að setja sig í samband við Breta til að ákveða framhaldið. Of snemmt sé að segja til um hvort þessi niðurstaða hafi áhrif á samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hugsanlega umsókn Íslendinga í Evrópusambandið.