Hollenska ríkisstjórnin væntir þess að fá um 15 milljarða evra, jafnvirði um 2.400 milljarða íslenskra króna, með skráningu bankarisans ABN Amro á markað. Bankinn var stofnaður á rústum Fortis-banka sem fór á hliðina í fjármálakreppunni árið 2008.

Bloomberg-fréttastofan hefur eftir Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands, á vef hollenska fjármálaráðuneytisins að undirbúningur fyrir skráninguna sé hafinn og stefnt að henni á fyrri hluta næsta árs.

Fréttastofan segir Hollendinga ekki þá einu sem séu að velta fyrir sér hvernig þeir geti losað um hluti ríkisins í bönkukm og fjármálafyrirtækjum. Stjórnvöld í Bretlandi séu sömuleiðis að leggja drögin að því að selja hluti sína í Lloyds. Á hinn bóginn mun langt í að ríkið losa sig við Royal Bank of Scotland.