Árni Páll Árnason, ráðherra Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að hollensku viðsemjendur Íslendinga hefðu veifað „minnisblaðinu" um 6,7% vexti frá því í október framan í íslensku samninganefndina daginn fyrir undirritun Icesave-samningsins nú í júní.

Þannig hefðu Hollendingar notað „minnisblaðið" til að koma í veg fyrir að vísað yrði til hinna sameiginlegu viðmiðana í sjálfum samningnum. Í þeim segir m.a. að í samningaviðræðum um Icesave skuli taka tillit til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í," eins og það er orðað.

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og formaður samninganefndar Íslands á þeim tíma, ritaði undir samkomulagið við Hollendinga sem kvað á um 6,7% vexti.

Hvergi talað um minnisblað í tilkynningu stjórnvalda

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu fór dágóður tími í að reyna að vinda ofan af samkomulaginu þegar í ljós kom að vaxtakjörin væru of há og Bretar kröfðust sams konar samkomulags. Íslendingar héldu því þá fram að um bráðabirgðasamkomulag hefði verið að ræða en Hollendingar voru ekki sammála þeirri túlkun.

Í tilkynningu íslenskra stjórnvalda um samkomulagið við Hollendinga 11. október var hvergi tekið fram að um bráðabirgðasamkomulag eða minnisblað væri að ræða. Þvert á móti fögnuðu fjármálaráðherrar Hollands og Íslands því sérstaklega að samkomulag væri í höfn.

Árni Páll sagði á Alþingi síðdegis að Hollendingar hefðu haldið því á lofti fram á síðasta dag að það væri rausnarlegt af þeim að víkja frá samkomulaginu um 6,7% vexti.

Viðskiptablaðið greindi frá þessu máli í mars og má sjá hluta þeirrar umfjöllunar hér.