Hollenska ríkið hefur þjóðnýtt bankann og tryggingafyrirtækið SNS Reaal, sem er fjórði stærsti banki Hollands. Bankinn, sem hefur um nokkurn tíma átt í alvarlegum erfiðleikum, fékk 750 milljóna evra (um 130 milljarða króna) ríkisaðstoð árið 2008. Reksturinn hefur að mestu leyti skilað hagnaði, en eignasafnið hefur rýrnað jafnt og þétt og var svo komið að bankinn var ekki lengur greiðslufær.

Bankinn hefur ítrekað varað við því að í óefni stefndi og var í viðræðum við einkaaðila um hugsanlega yfirtöku á bankanum allt þar til í gær.

Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands, tók ákvörðunina í dag og samkvæmt henni munu hluthafar tapa öllu sínu. Þá munu eigendur víkjandi skuldabréfa tapa töluverðu fé líka. Innstæður eru tryggðar upp að 100.000 evrum.