Marel gjaldfærði rúma 1,2 milljarða króna (8 milljónir evra) á síðasta ársfjórðungi sem framlag fyrirtækisins til Lífeyrissjóðs Stork og hafði þessi óvænta færsla mikil áhrif á afkomu heildarstarfseminnar.

Hluta starfsmanna Marelssamstæðunnar eru meðlimir í lífeyrissjóðnum, sem hefur verið tengdur Stork um langt skeið, og hefur Marel því skuldbindingar gagnvart sjóðnum. Eignir og skuldir sjóðsins tengjast þó efnahag Marels á engan hátt.

Í árslok 2008 var staða sjóðsins sú að hlutfall eigna á móti skuldbindingum var undir 104,5% lögbundnu lágmarki og óskaði hollenski seðlabankinn óskaði eftir því að Marel legði fram áætlun um hvernig félagið hygðist bæta úr. Fyrirtækið samþykkti að borga aukagjald sem greitt yrði á þriggja ára tímabili, þar af hafa 4,5 milljónir evra verið greiddar.

"Við erum að leggja hart að okkur að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig," sagði Erik Kaman, fjármálastjóri Marels, á kynningarfundi í morgun.

Áhrif á handbært fé

Hreinar vaxtaberandi skuldir Marelssamstæðunnar námu 284,1 milljón evra í lok 2. ársfjórðungs og hafa farið minnkandi á undanförnum misserum en þó ekki eins mikið og forsvarsmenn félagsins hefðu kosið. Félagið átti um 81 milljón evra í handbæru fé í lok júní sem var tveggja milljóna evra samdráttur á milli fjórðunga. Framlag félagsins til Lífeyrissjóðs Stork auk vaxtar félagsins skýrir þá þróun. Lausafjárstaða félagsins er þó góð, lausafjárhlutfallið er þannig um 1,3.

Ef horft er framhjá áhrifum þessarar óvæntu gjaldfærslu var uppgjör Marels ágætt. EBIT-framlegð var um 11,1% samanborið við 6,1% á sama tíma í fyrra. Pantanabókin er einnig góð en undanfarna sex ársfjórðunga hafa nýjar pantanir verið umfram afgreiddar pantanir.