*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 10. nóvember 2018 15:04

Hollir valkostir í Lautinni

Víðar en í Vesturbænum hafa nýlega risið upp veitingastaðir í nálægð við sundlaugar borgarinnar.

Höskuldur Marselíusarson
Magnús Guðfinnsson við Fóðurvagninn sinn sem hann hefur rekið við Árbæjarlaug síðan í ágúst síðastliðnum.
Haraldur Guðjónsson

Magnús Guðfinnsson rekur Fóðurvagninn við Árbæjarlaug sem var opnaður í ágúst. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær er flóra matsölu við sundlaugar borgarinnar óðum að verða fjölbreyttari en eingöngu klassíska SS pylsan. Þó er endurreisn Hagavagnsins fornfræga við Vesturbæjarlaug á þeim gamla grunni að þar var löngum einnig boðið upp á hamborgara.

„Þetta hefur gengið mjög vel og Árbæingar hafa tekið okkur opnum örmum. Við bjóðum fisk og franskar, síðan fiskvefjur með pestó og mangó chutney, sem hafa slegið algerlega í gegn hjá okkur, og auk hefðbundinna SS pylsna erum við með svokallaða lúxuspylsu með dorritos, osti og beikoni,“ segir Magnús, sem vildi einnig bjóða upp á holla valkosti enda Lautin svokallaða mikið íþróttasvæði, með Árbæjarlauginni og World Class, auk íþróttasvæðis Fylkis.

„Ég er alinn upp í fiski og verið sölumaður á honum í 16 ár. Þetta hefur verið nánast 98% að fólk er að sækja matinn, og svo er alltaf aðeins af sundferðalöngum. Það hefur verið mikið að gera á kvöldin þegar fólk er að sækja hjá okkur plokkfisk í bakka, en síðan bjóðum við líka upp á kjúklinga- og kjötsúpur sem eru vinsælar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Magnús