Maður lifandi, Himnesk hollusta, Biovara og Grænn kostur sameinast í nýju ónefndu fyrirtæki. Nýir eigendur koma að félaginu og allt kapp verður lagt á að efla vöruframboð og þjónustu á hollustuvörumarkaðinum.

Í tilkynningu vegna sameiningarinnar segir að starfsemi félaganna Maður lifandi, Himnesk hollusta, Biovörur og Grænn kostur hefur verið sameinuð frá og með 1. janúar 2008 í nýju óskírðu fyrirtæki. Markmið sameiningarinnar er að búa til öflugt fyrirtæki sem byggja mun á þeirri sameiginlegu sýn eigenda sinna að hollt mataræði stuðli að heilbrigði og auki lífsgæði. Hugmyndafræðin að baki rekstrinum byggist á breytingum sem orðið hafa í samfélaginu. Tíðni lífsstílssjúkdóma og margvíslegs ofnæmis hefur margfaldast, vinnutími fólks lengst og starfstengt álag aukist. En á sama tíma leggja æ fleiri áherslu á bætta heilsu og gera um leið kröfu til þess að geta matreitt fljótt og auðveldlega heilsusamlegan mat fyrir alla fjölskylduna á sanngjörnu verði.

Maður lifandi hefur byggt upp heilsuvöruverslun, matstofu og fræðslumiðstöð með miklu úrvali af lífrænni matvöru og bætiefnum, tilbúnum hollusturéttum sem hægt er að snæða á staðnum, taka með í vinnuna eða heim. Fræðslustarfið byggist á námskeiðum og ráðgjöf um mataræði, hollt líferni og ýmsa heilsutengda þætti. Fyrirtækið hefur verið starfrækt á tveimur stöðum, í Borgartúni og í Hæðasmára.

Grænn kostur hefur um árabil rekið einn vinsælasta heilsuveitingastað landsins í hjarta miðbæjarins, þar sem áhersla hefur verið lögð á lífrænan grænmetiskost í hæsta gæðaflokki. Sólveig Eiríksdóttir (Solla), annar stofnenda Græns kosts og Himneskrar hollustu er starfandi hluthafi í hinu sameinaða félagi.

Himnesk Hollusta og Biovörur hafa sérhæft sig í innflutningi á hágæða matvöru, snyrtivörum, hreinlætisvörum og fæðubótaefnum frá viðurkenndum fyrirtækjum. Vörurnar eiga það sammerkt að vera lífrænt ræktaðar, vistvænar, rekjanlegar og eru án allra auka- og eiturefna. Auk þess hefur Himnesk hollusta staðið fyrir víðtæku fræðslustarfi fyrir viðskiptavini og söluaðila um notkun á vörum fyrirtækisins, m.a. verið í formi mataruppskrifta, námskeiða og fyrirlestra.

Með sameiningu félaganna er stefnt að því að efla og hnitmiða alla þætti starfseminnar og auka til muna þjónustu við viðskiptavini þeirra  auk þess sem kynningar og fræðslustarf verður eflt enn frekar. Yfirlýst markmið félagsins er að bæta mataræði og neysluvenjur ungra sem aldinna og huga jafnframt að útvíkkun á starfsemi félagsins til annarra landa.

Allir eigendur hinna sameinuðu fyrirtækja eru hluthafar í hinu nýja ónefnda fyrirtæki ásamt fjárfestingafélagi Róberts Wessman, Salt Investments. Meðal eigenda í nýja fyrirtækinu eru auk Róberts, Sólveig Eiríksdóttir (Solla á Grænum kosti), Elías Guðmundsson og Hjördís Árberg.