Framkvæmdastjóra Pegasus Productions, Ella Cassata, þykir umræðan um opinberan stuðning við kvikmyndagerð hafa verið óþarflega neikvæð nýverið.

„Hún er svolítið á þá leið að Hollywood sé að koma og hirða allan peninginn. Það er alls ekkert þannig.“

Sjá einnig: Ellefu milljarðar fyrir 360 verkefni frá 2016

„Hollywood fær þrjá milljarða endurgreidda já, allt í lagi með það,“ segir hann og vísar til framleiðslu næstu þáttaraðar True Detective sem fyrirhuguð er hér á landi á næsta ári, „en restin af þessum níu verður eftir í landinu og ríkið búið að fá sinn skammt af þeim öllum. Allur kvikmyndabransinn hérna græðir svo á þessu. Við fáum betri tækjaleigu og meiri tæki. Við fáum gífurlega reynslu og þekkingu. Við getum byggt upp kvikmyndaverin, keypt betri vinnubíla og annan búnað. Allt nýtist þetta með beinum hætti strax í næstu verkefnum.“

Rétt hjá Lilju að ekki sé um hreinan niðurskurð að ræða

Margir innan listaheimsins hafa tekið það óstinnt upp að á sama tíma og stefnir í stóraukin útgjöld ríkisins vegna endurgreiðslu framleiðslukostnaðar kvikmynda hafi fjárframlög til Kvikmyndasjóðs verið skert verulega.

„Það er hræðilegt að verið sé að skera niður kvikmyndasjóð. Það er stórmál og það eru vondar fréttir,“ segir Elli, en sýnir þeim rökum menningarmálaráðherra skilning að viðbótarframlög vegna faraldursins hafi alltaf átt að vera tímabundin.

„Það var alltaf milljarður, síðan hækkuðu þeir það um 500 milljónir í Covid til að örva starfsemina og atvinnulífið, sem var frábært, en það er alveg rétt hjá Lilju Alfreðs að það er erfitt að kalla þetta hreinan niðurskurð.“


Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.