*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 1. janúar 2019 14:28

Hollywood kaupir upp hlaðvörp

Í sífelldri leit að góðu efni hafa Netflix, Amazon, Apple og fleiri fært vinsælustu hlaðvörpin úr hljóði í mynd.

Ritstjórn
Hlaðvörp og alls kyns talað efni hefur átt sífellt meiri vinsældum að fagna víða um heim, og ekki er ólíklegt að ýmsir ætli sér að hlusta á meira gott efni á nýju ári.
Aðrir ljósmyndarar

Stjórnendur í fyrirtækjum eins og Netflix, Amazon og Apple, sem hafa verið að gera sig sífellt meira gildandi í kvikmynda- og þáttagerðariðnaðinum í Bandaríkjunum sem mikið til er staðsettur í Hollywood í Kaliforníu hafa fundið nýja uppsprettu vinsæls efnis.

Fyrirtækin sem áður hafa verið dugleg að kaupa upp ýmis konar sjónvarpsþætti og annað frá stóru sjónvarpsstöðvunum hafa nú fært sig yfir í að kaupa vinsæl hlaðvörp, eða podcasts eins og þau heita á ensku.

Í umfjöllun New York Times um málið er samanburður gerður við það þegar sjónvörpin komu fram á sjónarsviðið en sjónvarpsstöðvarnar byrjuðu á því að kaupa vinsælt útvarpsefni eins og The Lone Ranger, Our Miss Brooks og Dragnet, sem voru meðal fyrstu þáttanna til að skapa sér miklar vinsældir.

Þannig er þátturinn Homecoming með Júlíu Roberts byggður á hlaðvarpi frá Gimlet Media og Dirty John sem Bravo framleiðir með Eric Bana í aðalhlutverki er byggð á sannsögulegu hlaðvarpi frá Los Angeles Times og hlaðvarpsfyrirtækinu Wondery.

Fyrrum stjórnandi hjá Fox, Hernan Lopez sem stofnaði Wondery ákvað að nýta ýmislegt úr ranni Hollywood til að auka eftirspurn eftir hlaðvörpum fyrirtækisins. Þannig eru hlaðvörpin bæði auglýst og gefnar út stutt stríðnis- og kynningarmyndbönd eins og fyrir bíómyndir og sjónvarpsseríur.

„Ég ákvað að byggja upp fyrirtæki sem gæti byggt á því að nýta í hlaðvörp þekkinguna úr sjónvarpi og bíómyndum, bæði í frásagnargerð og framleiðslu, sem og í markaðssetningu,“ er haft eftir honum.

Meðal þátta sem hafa náð því að komast úr hlaðvarpi í sjónvarpi er Lore frá Amazon sem nýlega var ákveðið að framleiða aðra seríu fyrir. Upphaf hennar var hlaðvarp um ógnvekjandi raunverulegar sögur sem rithöfundurinn Aaron Mahnke hélt utan um.

Ben Silverman framkvæmdastjóri hjá Propogate segir hlaðvörp vera góða uppsprettu efnis, því aðdáendur þess er annt um efnið. „Þú þarft að leggja þig eftir efninu til að ná í hlaðvörp,“ segir Silverman, en fyrirtæki hennar er að framleiða þáttaröð upp úr Sword and Scale, sannri glæpaseríu frá Wondery.

„Von okkar er sú að aðdáendurnir að hlaðvörpunum séu sömuleiðis nægilega virkir til að horfa á þættina þegar þeir verða tilbúnir.“