Niðurstaða er komin í átta mál þar sem umsækjendur hjá umboðsmanni skuldara hafa óskað eftir svokallaðri afmáningu veðkrafna. Beðið er eftir niðurstöðum í 34 málum en fjöldi annarra mála gæti farið fyrir sýslumenn á næstu árum.

Um þriðjungur samninga hjá umboðsmanni skuldara inniheldur veðkröfur en fjöldi samninga hjá umboðsmanni skuldara er kominn yfir 1.800 talsins. Ástæðan fyrir því að svo fá mál hafa farið fyrir sýslumann er sú að umræddir samningar með veðkröfum voru yfirleitt til þriggja ára og þarf að bíða eftir að þeir renni út áður en sótt er um afmáningu.

Til að fá afmáð af fasteignaláni þarf skuldari raunar að sýna fram á að hann geti staðið undir láni sem nemur verðmati fasteignar en ekki undir þeim lánum sem hvíla á henni nú þegar. Ef sýnt er fram á þetta verður sú fjárhæð sem er umfram verðmatið afmáð af veðbókarvottorði.