*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 1. september 2011 08:44

Holyoake í stjórn ISI

Verið er að ganga endanlega frá viðskiptum Mark Holyoake á 73,1% hlut í Iceland Seafood International.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Mark Holyoake, sem samdi um kaup á 73,1% hlut í Iceland Seafood International( ISI) í janúar 2010, virðist loks vera að ganga frá fullnaðargreiðslu fyrir hlutinn. Á stjórnarfundi ISI miðvikudaginn 24. ágúst síðastliðinn settist Holyoke í stjórn félagsins. Holyoake staðfestir í tölvupósti við Viðskiptablaðið að verið sé að ganga endanlega frá viðskiptunum.

Kaupin eru gerð í gegnum félag Holyoke, International Seafood Holdings SARL. Það samdi um kaup á 73,1% hlut Kjalars ehf., félags í eigu Ólafs Ólafssonar, í ISI í janúar í fyrra. Í samkomulaginu fólst þó að Holyoake myndi ekki fá hlutabréfin afhent fyrr en fullnaðargreiðsla fyrir þau lægi fyrir. Hjörleifur Jakobsson hefur því setið áfram í stjórn ISI sem fulltrúi Kjalars. Hann var endurkjörinn í síðustu viku og Benedikt Sveinsson er áfram stjórnarformaður ISI.

Samhliða kaupum á ráðandi hlut Kjalars var samið um að aðrir hluthafar myndu selja Holyoake sína hluti í fyrirtækinu. Holyoake var fyrir þó nokkru búinn að greiða þorra þeirrar upphæðar sem samdist um að hann greiddi fyrir ISI. Nú herma heimildir Viðskiptablaðsins að búið sé að tryggja seljendunum það sem upp á vantar og því muni salan klárast með formlegum hætti á næstunni.