*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 28. mars 2018 12:03

Holyoake kominn með minnihluta í ISI

Eigandi 50,55% eignarhlutar í Iceland Seafood selur 4,9% hlut í félaginu á tæplega 500 milljónir.

Ritstjórn
Mark Holyoake á nú minnihluta í Iceland Seafood International

Stjórnarmaður í Iceland Seafood International og eigandi félags sem á ríflega helmingshlut í félaginu, Mark Holyoake, hefur selt 64 milljón hluti í félaginu samkvæmt tilkynningu í kauphöllinni.

Söluverðið er 7,40 krónur á hlut sem gerir að heildarsöluandvirðið er um 473,6 milljónir króna. Heildarfjöldi hluta í fyrirtækinu nemur 1.299.588.344 svo um er að ræða 4,9% hlut sem Holyoake er nú að selja.

Átti um 64% í lok árs 2016

Félag hans, International Seafood Holdings, hefur verið að minnka hlut sinn í ISI síðasta árið en í lok árs 2016 átti það um 64% í ISI en átti í árslok ríflega helmingshlut að því er Fréttablaðið greinir frá.

Nam eignarhlutir ISH í ISI um 657 milljónum bréfa, sem samsvarar um 50,55% eignarhlut, í lok síðasta árs, sem eru metin á um 4,8 milljarða króna. Með viðskiptunum í dag ætti eignarhluturinn að vera kominn niður fyrir helming, eða í kringum 45%, hafi ekki frekari viðskipti átt sér stað á árinu.

Félög sem hafa bæst í hluthafahópinn síðasta árið má nefna Íshöll í eigu Stefáns Ákasonar fyrrverandi forstöðumanns skuldabréfamiðlunar Kaupþings, HEF kapital í eigu Birgis Ellerts Birgissonar og Bluberg í eigu félag Helga Antons Eiríkssonar.
Öll áttu þessi félög um tveggja prósenta hlut í ISI í lok síðasta árs. Næst stærsti eigandinn er svo Kvika banki sem átti í árslok um 9% eignarhlut, en átti í árslok 2016 um 11% hlut.

Stikkorð: Holyoake Mark