Tap bandaríska byggingavörusmásalans Home Depot nam á fjórða ársfjórðungi síðasta árs 54 milljónum dala eða því sem nemur 3 centum á hvern hlut samanborið við hagnað upp á 671 milljón dala á sama tíma árið áður eða 40 centum á hvern hlut.

Afkoma félagsins er þó umfram væntingar en búist er við því að félagið tapi einnig á fyrsta ársfjórðungi þess árs.

Stóran hluta útgjalda á tímabilinu má rekja til starfslokagreiðslna en keðjan lokaði verslunum í sinni eigu, Expo Design Center og sagði í leiðinni upp öllum starfsmönnum sem allir fengu þó starfslokagreiðslur. Þá fylgdu aðrir kostnaðarliðir í kjölfarið en alls námu útgjöld vegna lokanna Expo um 387 milljónum dala.

Þá afskrifaði félagið 163 milljónir dala á tímabilinu.

Sé kostnaður vegna Expo og afskriftir aðskilinn frá uppgjörinu nemur hagnaður félagsins um 19 centum á hvern hlut en greiningaraðilar á vegum Reuters fréttastofunnar höfðu gert ráð fyrir 15 centum á hvern hlut, þ.e. með tilliti til fyrrnefndra atriða.

Sala Home Depot dróst þó saman um 17% á tímabilinu og námu tekjur félagsins um 14,6 milljörðum dala. Þó tókst að ná rekstrartekjum niður um 2% á tímabiliu.

Byggingavöruverslanir hafa ekki farið varhluta af þeirri efnahagskrísu sem nú ríkir vestanhafs og hefur hagnaður Home Depot sem og helsta samkeppnisaðilans Lowe‘s lækkað jafnt og þétt milli ársfjórðunga síðasta árið.

Home Depot tilynnti um miðjan janúar að aðeins 12 nýjar verslanir yrðu opnaðar á árinu en áður stóð til að opna á milli 30 – 35 verslanir. Keðjan opnaði 40 nýjar verslanir í ár.