Ekki er við öðru að búast en að „umbylting verði á öllum valdastrúktúr á Íslandi“ meðan menn samþykkja umyrðalaust að erlendar stofnanir seilist til áhrifa hér á landi án skýrra lagaheimilda. Svo ritar héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson í nýjasta hefti Þjóðmála og segir að skýrasta dæmið um þá viðvörunarbjallan um þá þróun sé „hömlulaus innleiðing erlendra reglna“. Að auki sé íhlutun Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sjálfstætt íhugunarefni.

Grein Arnars Þórs ber yfirskriftina „Staða lýðveldis og fullveldis á Íslandi“ og hefst með þeim orðum að undanfarið hafi atburðir á meginlandinu kallað gjörningaveður yfir íslenskan rétt. Við aðild að EES og lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) hafi verið sett skýr ákvæði um að úrlausnir dómstólsins væru ekki bindandi að landsrétti.

„Á undanförnum árum, einkum 2019 og 2020, hafa mál þróast með þeim hætti að ætla mætti að lagalegir fyrirvarar Íslands við samninga þá sem hér um ræðir hefðu verið settir til hliðar. Samhliða því hefur almennri umræðu verið hagað eins og ekkert sé athugavert við að erlendir embættismenn geti sýnt íslenskum stjórnvöldum ráðríki og farið sínu fram án þess að æðstu stofnanir lýðveldisins Íslands […] fái rönd við reist,“ ritar Arnar Þór.

Að mati dómarans, sem í starfi sínu ber að dæma aðeins eftir lögunum, er það áhyggju efni að „lögin“ séu í að stórum hluta sett af erlendum embættismönnum án umræðu hér á landi. Afleiðing þessarar þróunar sé að allir þættir ríkisvaldsins hafi veikst stórlega. Nýjasta dæmið sé dómur yfirdeildar MDE í Landsréttarmálinu en að mati Arnars Þórs skekur dómurinn „íslenskt dómsvald sömuleiðis […] á sínum stjórnskipulega grunni.“

„Er ásættanlegt að á milli valdhafa og borgara sé engin gagnvirkni, engin endurgjöf, engin gagnrýni, engin tengsl hvað ábyrgð varðar? Er ekki með þessu vegið að öllu hefðbundnu, lífrænu stjórnmálaferli, þ.m.t. lýðræði og lagasetningu? Ef það stjórnarfyrirkomulag sem hér var lýst felur í sér breyttan valdastrúktúr, hvernig eru þá misheppnaðar reglur endurskoðaðar, hvernig eru mistök leiðrétt, hvernig eru vond lög færð til betri vegar? Hver er staða íslensks almennings í slíku valdakerfi?“ spyr Arnar Þór.

Í niðurlagi greinarinnar vitnar dómarinn til samtals síns við Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og forsætisráðherra í ríkisstjórn þeirri sem samþykkti aðild að EES. Hefur hann eftir Davíð „að Íslendingar hefðu ekki farið inn í EES „á þeirri forsendu að okkur bæri að samþykkja allt, heldur að við gætum hafnað hverju sem væri“. Þá bætti hann því við að „ef EES-samningurinn hefði ekki innihaldið ákvæði um neitunarvald hefðum við aldrei fullgilt hann. Þetta var forsenda þess að við gætum haldið stjórnarskránni ólaskaðri“.“

Grein Arnars Þórs má lesa í heild sinni með því að smella hér .