Póst- og fjarskiptastofnun hefur úrskurðað að takmörkun sú sem kveðið er á um í internetskilmála Símans hf., sem heimilar fyrirtækinu að lækka tímabundið hraða á tengingu áskrifenda vegna erlends niðurhals sem fer umfram 20 Gb á 7 daga tímabili, feli ekki í sér brot á ákvæðum fjarskiptalaga. Þá sé stofnunin ekki bært stjórnvald til að skera um hvort auglýsingar Símans þar að lútandi feli í sér óréttmæta viðskiptahætti.

Póst- og fjarskiptastofnunar hóf rannsókn í kjölfar þess að kvörtun barst henni vegna þess að Síminn hafði takmarkað hraða á nettengingu kvartanda vegna óhóflegs erlends niðurhals þrátt fyrir að hann væri áskrifandi að ADSL-þjónustu sem Síminn auglýsti að fæli í sér ótakmarkað niðurhal.

Kvörtunin send Neytendastofu

Stofnunin telur að ekki hafi tekist að sýna fram á að skilmálar Símans vegna þessarar þjónustu brjóti í bága við fjarskiptalög. Kvörtunin var hins vegar áframsend Neytendastofu, ásamt kröfu kvartanda um bætur vegna þess tjóns sem takmarkaður netaðgangur hefur valdið honum.