Japanski bílaframleiðandinn Honda hefur kallað inn 4,5 milljónir bíla til viðbótar vegna ótta við banvæna loftpúða frá Takata fyrirtækinu. Nú þegar hafa fjölmargir bílaframleiðendur á borð við Toyota kallað inn tugi milljóna bíla frá árinu 2008 vegna loftpúðanna, flesta í Bandaríkjunum.

Að minnsta kosti átta dauðsföll í bifreiðum Honda hafa verið tengd við loftpúðana, en þeir skjótast út með of miklum krafti og með þeim lítil brot sem geta reynst banvæn. Auk áðurnefndra bílaframleiðanda hafa Nissan, General Motors og BMW kallað inn bíla.

Honda, sem er þriðji stærsti bílaframleiðandinn í Japan, hefur lent verst í loftpúðunum og þurft að kalla inn 24,5 milljónir bifreiða. Er það meira en helmingur allra innkallaðra bifreiða í heimi.

Talsmaður Honda í Tokyo sagði að í fyrsta skiptið ætlaði fyrirtækið nú að kalla inn bíla áður en rannsóknum á loftpúðunum væri lokið. Þetta væri gert af öryggisástæðum.

Takata glímir í augnablikinu við fjölmargar hópmálsóknir og auk þess eru þeir rannsakaðir fyrir glæpsamlegt athæfi í Bandaríkjunum.