*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Erlent 27. september 2020 17:04

Hönnun flaggskips Nikola aðkeypt

Stofnandi Nikola er sakaður um að hafa keypt hönnun vörubílsins Nikola One þrátt fyrir gagnstæðar yfirlýsingar.

Júlíus Þór Halldórsson
Nikola One vörubíllinn, sem stofnandinn Trevor Milton átti að hafa hannað í kjallaranum hjá sér, er nú sagður hafa verið hannaður af króata sem Milton keypti hönnunina svo af.
Aðsend mynd

Hönnun vörubíls rafbílaframleiðandans Nikola – sem félagið hefur fullyrt að stofnandinn Trevor Milton hafi hannað í kjallaranum hjá sér – var keypt af króatískum rafbílahönnuði árið 2015. Þetta hefur Financial Times eftir ónefndum heimildarmönnum.

Nikola stendur í málaferlum við rafbílaframleiðandann Tesla vegna vörubílsins, Nikola One. Nikola sakar Tesla um að hafa brotið á einkaleyfi sínu á bílnum, sem Milton hafi hafið að hanna 2013, og fleiri starfsmenn fyrirtækisins síðar tekið þátt.

Tesla hefur hinsvegar svarað því til að Nikola sé ekki stætt á einkaleyfisvernd á hönnun sem ekki eigi rætur að rekja til fyrirtækisins sjálfs. Hún hafi verið keypt af hönnuðinum Adriano Mudri, sem hannar rafbíla fyrir króatíska fyrirtækið Rimac.

Líkti bílunum við iPhone-síma
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Nikola er sakað um að eigna sér tækni og hönnun annarra nýverið. Fyrir viku síðan sagði Milton af sér vegna ásakana skortsalans og greiningaraðilans Hindenburg Research, meðal annars þess efnis að félagið hafi látið í veðri vaka að það hafi hannað og/eða hyggist framleiða ýmisskonar tækni, sem raunin sé að hafi verið eða verði aðkeypt.

Fjármálastjóri Nikola, Kim Brady, svaraði nýverið ásökunum um að Nikola hafi gert meira úr eigin rannsóknar- og þróunarvinnu en tilefni sé til með því að líkja vörum fyrirtækisins við iPhone-síma. Apple framleiði sjálft ekki einn einasta hluta símans, heldur felist framlag þess í hönnun og samþættingu eiginleika og viðmóts.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Nikola