GuSt er eitt fjölmargra íslenskra fyrirtækja í fatahönnun sem hefur vakið athygli hérlendis og erlendis undanfarin ár.  Stofnandi fyrirtækisins er Guðrún Kristín Sveinbjörnsdóttir. Hún kom heim úr námi frá Þýskalandi árið 1997 og hóf fljótlega að selja eigin hönnun undir nafninu GuSt. Fyrirtækið sjálft var þó ekki stofnað fyrir en árið 2003. Nú undirbýr Guðrún sölu til Danmerkur og Þýskalands.

GuSt tók þátt í sýningum í Danmörku og Þýskalandi seint á síðasta ári og aftur í upphafi þessa árs. ,,Sýningin í Danmörku var mjög stór sýning og þar koma stórir innkaupaaðilar frá Norðurlöndunum. Ég er mjög spennt fyrir Danmörku og tel hönnun mína eiga erindi þangað.”

Hún segir þýska markaðinn einnig spennandi, bæði sé hann mjög stór og svo lærði hún þar og þekkir því ágætlega til aðstæðna.

Guðrún bindur miklar vonir við útflutning GuSt næstu árin. Hún áætlar að innan tveggja ára komi a.m.k. helmingur tekna fyrirtækisins að utan. ,,Miða við hvað Ísland er lítið land og hvað ég næ að gera hérna get ég ekki verið annað en bjartsýn. Um leið og vörur okkar eru komnar í verslanir í nokkrum borgum í útlöndum mun tækifærum fjölga enn frekar enda markahópurinn þar mun stærri en hér heima.”

Nánar er fjallað um GuSt í viðtali við Guðrúnu Kristínu Sveinbjörnsdóttur í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .