*

sunnudagur, 7. mars 2021
Fólk 17. janúar 2021 15:41

Hönnunarstofa ræður Hildi Halldórs

Hildur Halldórsdóttir hefur verið ráðin til Kolofon frá Omnom til að halda utan um verkferla og almenna umsjón.

Ritstjórn
Hildur Halldórsdóttir kemur til hönnunarstofunnar Kolofon frá Omnom.
Aðsend mynd

Hönnunarstofan Kolofon hefur ráðið Hildi Halldórsdóttur til að halda utan um verkferla og almenna umsjón á stofunni. Hildur útskrifaðist með B.A. í sálfræði frá HÍ árið 2008 og sem grunn- og framhaldsskólakennari árið 2011.

Frá útskrift hefur hún starfað við hugmyndaþróun, verkefnastjórn og upplýsingagjöf en frá árinu 2015 hefur hún gegnt ýmsum leiðtogahlutverkum í frumkvöðlaævintýri íslensku súkkulaðigerðarinnar Omnom.

Með ráðningu Hildar telja starfsmenn stofunnar nú átta talsins, en Hildur er fyrsti starfsmaðurinn sem kemur inn sérstaklega til að halda utan um umsjón innan stofunnar. Hönnunarstofan Kolofon var stofnuð fyrir þremur árum. Hún sérhæfir sig í mörkun, hönnun og forritun fyrir stafræna miðla, ásamt almennri upplýsingahönnun.

„Kröfuhörð verkefni og skemmtilegar áskoranir undanfarin misseri hafa kallað á þróun stofunnar til að geta staðið undir þeim metnaði sem er til staðar hjá okkur alla daga,” segir Hörður Lárusson, hönnuður og einn stofnenda stofunnar.

„Hér er kafað djúpt í verkefnin, í nánu samstarfi við viðskiptavinina, og mikill metnaður lagður í að skila vönduðu handverki og endingagóðri hönnun. Ráðning Hildar er mikilvægt skref inn í komandi tíma og erum við heppin að fengið hana til liðs við okkur.“