Nýtt íslenskt borðspil sem ber nafnið Aflakló er nú í hópfjármögnun hjá Karolina Fund. Þau sem standa fyrir spilinu eru Bjarki Vigfússon, Haukur Már Gestsson og Milja Korpela, en spilinu er lýst sem eins konar blöndu af gamla Útvegsspilinu og Hættuspili.

„Leikmenn keppast um að byggja upp útgerðarveldi með því að sigla um landið, sækja miðin, selja afla og klekkja hver á öðrum. Á leiðinni getur allt gerst því á hverju horni leynast óvæntir gestir og norskir útgerðarmenn, Grænfriðungar og tíð ríkisstjórnarskipti valda usla í landi aflaklónna,“ segir Bjarki en bætir við að spilið sé þó alls ekki einungis fyrir þá sem hafi vit og áhuga á sjómennsku.

Stefnt er að því að gefa spilið út fyrir jólin og dreifa því um land allt en hópfjármögnunarferlið stendur yfir út september.