Hópmálsókn á hendur Arion banka vegna hlutafjárútboðs Haga er langt komin og er gert ráð fyrir því að málið verði þingfest um miðjan næsta mánuð. Málið höfða þrír Íslendingar, búsettir erlendis, sem allir skráðu sig fyrir hlutum í Högum í útboðinu, sem fór fram í byrjun desember 2011. Fengu þeir kvittun fyrir staðfestingu áskriftar, en síðar í desember var þeim greint frá því að áskriftin að hlutabréfunum væri ekki gild þar sem þeir hefðu lögheimili erlendis.

Þremenningarnir hafa ákveðið að höfða mál gegn bankanum vegna þessa og hafa stofnað málsóknarfélag vegna þess á grundvelli ákvæða einkamálalaga um hópmálssóknir. Borgar Þór Einarsson, lögmaður hjá Opus lögmönnum, er lögmaður félagsins, sem ber heitið Haga-vagninn.

Borgar segir að ekki sé um skaðabótamál að ræða. „Mínir umbjóðendur vilja einfaldlega fá þá hluti sem þeir voru skráðir fyrir og eiga rétt á samkvæmt skilmálum útboðsins.“

Nánar er fjallað um málið í VIðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.