Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi þremur hópmálsóknarmálum fyrrum hluthafa í Landsbankas gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að málatilbúnaðurinn væri ekki eins einsleitur, og lög um hópmálsókn kveða á um.

Er þetta sama niðurstaða og þegar hópmálsóknarmáli gegn Björgólfi var vísað frá héraði og síðar Hæstarétti í fyrra. Brugðust ósáttu hluthafarnir við með því að skipta málinu í þrennt eftir því hversu lengi þeir höfðu átt bréf í Landsbankanum og stefndu þeir Björgólfi Thor aftur.

Í dómnum segir:

„Séu þessar almennu forsendur settar í samhengi við það mál sem hér er til úrlausnar þá liggur fyrir að nokkuð langur tími leið frá því að ætluð saknæm háttsemi stefnda átti sér stað þar til tjón félagsmanna stefnanda á að hafa orðið. Kunna einhverjir þeirra að hafa selt meira af hlutabréfum í bankanum á þessum tíma og allt til þess að bankinn féll í október 2008, en þeir sátu uppi með í lokin. Því er ekki unnt að útiloka að einhverjir félagsmenn stefnanda hafi í raun hagnast af því að stefndi lét hjá líða að gera það sem stefnandi telur að honum hafi verið skylt að gera, enda hefði sú ráðstöfun átt að leiða til lækkunar á verði hlutabréfanna miðað við forsendur í stefnu. Við umfjöllun um tjón í þessu samhengi verða ætluð viðbrögð félagsmanna við þeim upplýsingum, sem stefnandi telur að hafi skort, ekki heldur afgreidd með einhliða yfirlýsingu stefnanda um að félagsmenn hans hefðu allir sem einn ekki kært sig um að vera hluthafar í bankanum og þeir því ekki keypt og/eða selt alla hluti sína í honum.

Eins og mál þetta er vaxið telur dómurinn því að málatilbúnaður allra félagsmanna stefnanda geti ekki verið einsleitur að þessu leyti þó að þættir er lúti að hinni ætluðu bótaskyldu háttsemi stefnda séu það. Skilyrði 1. og 2. mgr. 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 er því ekki fullnægt að þessu leyti þannig að höfða megi málið í þeim búningi sem þar er kveðið á um. Því er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi."

Í frétt Mbl.is segir Jóhannes Bjarni Björnsson, lögmaður málsóknarfélaganna að úrskurðinum verði skotið til Hæstaréttar.