*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 29. september 2019 14:51

Hopp er fyrsta rafskútuleiga Íslands

Rafskútuleigan Hopp hóf starfsemi á fötudag og hefur dreift 60 rafskútum um miðborgina til útleigu.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór fyrstu rafskútuferðina.
Aðsend mynd

Nú er hægt að leigja rafskútu (rafhlaupahjól) í miðborg Reykjavíkur eftir að rafskútuleigan Hopp hóf starfsemi á föstudag fyrir helgi. 60 rafskútum (rafhlaupahjólum) hefur verið dreift um miðborgina og eru bæði ferðamenn og borgarbúar farnir að nýta sér þennan nýstárlega ferðamáta. 

Ægir Giraldo Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Hopp, segir í tilkynningu að æ fleiri séu að uppgötva hvað þetta sé hagkvæmur og umhverfisvænn ferðamáti, og ekki síst skemmtilegur „Rafskúturnar hafa verið mjög vinsælar og eru bæði nýttar sem aðalferðamáti og til skemmtunar. Íslendingar hafa einnig verið að leigja rafskútur í miklum mæli erlendis og er frábært að nú hafa þeir tækifæri til að ferðast um miðbæinn okkar á þennan umhverfisvæna og skemmtilega máta.“

Hægt verður að leigja hágæða rafskútur í miðbæ Reykjavíkur og stefnan er sett á að stækka svæðið í náinni framtíð. Sumarið og haustið hefur farið vel með höfuðborgarbúa en veturinn er óumflýjanlegur og því eru rafskúturnar frá Hopp sterkbyggðar og hannaðar til þess að lifa veturinn af. Rafskútan er byggð fyrir óslétta vegi, bleytu, vind og allt það sem veturinn færir okkur.

Farsímafyrirtækið Nova ætlar í samstarfi við Hopp að styðja við breyttan lífsstíl viðskiptavina sinna og býður þeim fría rafskútuferð í gegnum Nova appið. Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova segir rafskútur vera frábæran valkost til að komast fljótt á milli staða.

„Þetta er skemmtilegur og umhverfisvænn ferðamáti. Vitund Íslendinga hefur aukist mikið í umhverfismálum og við erum stolt að geta stutt við okkar viðskiptavini með þessum hætti. Við hjá Nova vorum fyrst til að bjóða rafskútur til sölu á Íslandi og erum einnig að endurgræða raftæki og samstarfið við Hopp er okkar leið til að vera umhverfisvænni.“

Stikkorð: Borgarstjóri hopp Rafskútuleiga