Rafskútufyrirtækið Hopp hefur stækkað þjónstusvæði sitt og nær nú til Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Kópavogs. Jafnframt stendur til bæta við þjónustusvæði í Reykjanesbæ, Egilsstöðum, Vestmannaeyjum, Akureyri, Hellu, Siglufirði og Ólafsvík. Í fréttatilkynningu kemur fram að hægt verði að nota ferðamátann á landsbyggðinni í sumar.

Rafskútum Hopp fjölgar úr 300 í 1.200 í mánuðinum. Nýju skúturnar búa yfir ýmsum eiginleikum, en þar ber helst að nefna stefnuljós, símahaldara með þráðlausri hleðslu, tvöfaldar bremsur, nýjan standara og nýtt útlit.

Hopp er íslenskt fyrirtæki sem opnaði 2019 og eru notendurnir komnir yfir 75.000. Samtals hafa þeir „hoppað“ yfir milljón kílómetra, sem samsvarar 25 ferðum í kringum hnöttinn.