Rafhlaupahjólaleigan Hopp hefur samið við sérleyfishafa um að hefja starfsemi á Akureyri og í Vestmannaeyjum næsta sumar. Hopp gerist þar með fyrsta rafhlaupahjólaleigan sem tekur til starfa utan höfuðborgarsvæðisins, en hún var einnig fyrst til að hefja starfsemi innan þess.

Unnið hefur verið að því hörðum höndum síðustu mánuði að breyta hugbúnaði fyrirtækisins þannig að hægt sé að opna sérleyfi í gegnum Hopp. „Fólk á þá reksturinn sjálft en vinnur með okkur við allt miðlægt tengt rekstrinum, sérstaklega hugbúnað og stjórnun,“ segir Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri Hopp.

Samstarfið virkar þannig að Hopp útvegar hugbúnaðinn og aðra miðlæga þjónustu, rekstraraðili kaupir svo sérstaka gerð rafhlaupahjóla í gegnum Hopp, og Hopp tekur svo ákveðið hlutfallslegt gjald af allri veltu sem þjónustugjald.

Nokkuð er síðan Hopp fékk sérleyfishafa á Spáni, en næsta sumar hefst einnig starfsemi sérleyfishafa á Akureyri, með 65 hjól, og í Vestmannaeyjum, með 25 hjól. Starfsleyfi hefur þegar fengist hjá Akureyrarbæ og vilyrði hefur verið gefið af bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum, að sögn Eyþórs.

Hopp er stöðugt í leit að fleiri samstarfsaðilum. „Það er enginn staður of smár fyrir Hopp,“ segir hann að lokum.