Rafhlaupahjólaleigan Hopp vill setja upp starfsemi í Reykjanesbæ í samstarfið við sérleyfishafa í bænum samkvæmt kynningu sem gerð hefur verið fyrir bæjarstjórn.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í haust hefur félagið þegar samið við sérleyfishafa um starfsemi á Akureyri og í Vestmannaeyjum næsta sumar. Í kynningunni segir félagið einnig ætla að setja upp sérleyfi í borginni Dénia á austurströnd Spánar. Fyrsta sérleyfi þess var sett á laggirnar í ágúst í fyrra.

Félagið utan um Hopp rafhlaupahjólaleiguna var stofnað árið 2019 og halda úti flota rafhlaupahjóla sem viðskiptavinir geta leigt í stutta stund. Í kynningunni eru taldir upp kostir rafhlaupahjóla og þau sögð ódýr, fullkomin fyrir stuttar ferðir, umhverfisvæn og vera lausn á því sem kallað er „the last mile problem“ eða vandinn um síðustu míluna.

Jafnframt eru taldar upp misfarir hjá öðrum þjónustum, en nú eru þrjú önnur fyrirtæki starfandi á þessum markaði hér á landi. Þar eru misfarirnar sagðar vera að bjóða of mörg hjól, að starfa ekki með samþykki yfirvalda á svæðinu, illa séð um þjónustuna og valda bæjarbúum óþægindum.

Með því að hafa íbúa á svæðinu sem opni sérleyfi og reki þjónustuna segir Hopp að betri yfirsýn fáist, auðveldara sé að bregðast við uppákomum og þannig fáist einnig þekking á svæðinu. Hugbúnaðurinn utan um leiguna sé þó áfram þróaður af Hopp sem geri reksturinn skilvirkann og sýni framboð og eftirspurn. Auk þess er skilvirkari rekstur nefndur á ný í upptalningunni.

Félagið segir einnig að hjá sér og sérleyfishöfum félagsins séu heimamenn í fyrsta sæti, og verðlagningin samkeppnishæf við aðrar almenningssamgöngur. Jafnframt endurspegli dreifing hjólanna ferðavenjur heimamanna.

Hjá félaginu eru sagðar hafa verið farnar 535.006 ferðir, af 73.490 notendum, þar af séu 89% þeirra heimamenn. Jafnframt reiknar félagið sér til að það hafi sparað 153 tonn í útblæstri koldíoxíls. Jafnframt er útblásturinn frá rekstrinum sagður vera 0 tonn því bæði séu hjólin rafknúin og rafknúin farartæki séu notuð fyrir dreifingu og hleðslu hjólanna.

Loks er þeirri spurningu svarað hvað Hopp geti gert fyrir Reykjanesbæ og þar vísað í hluta af regluverki sem félagið hafi útbúið með Reykjavíkurborg:

  • Rekstraraðilar þurfa leyfi fyrir starfseminn
  • Takmarka fjölda skúta miðað við notkun
  • Rekstraraðilar deila notkunar gögnum með sveitarfélagi
  • Sveitarfélagið getur sett bannsvæði þar sem ekki má leggja sem og hraðatakmarkanir
  • Rekstraraðili þarf að fræða notendur um öryggi og hvernig best er að leggja rafskútunum
  • Rekstraraðili þarf að bregðast fljótt við biluðum eða týndum rafskútum