Íslenska rafskútufélagið Hopp hefur tryggt sér 381 milljóna króna fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði II og stefnir nú á frekari opnanir á erlendum mörkuðum með sérleyfum (e. franchise). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Notendur Hopp hugbúnaðarins eru nú um 170 þúsund talsins. Fyrirtækið telur sína helstu sérstöðu liggja í hugbúnaðarlausninni sinni ásamt því að einblína á sérleyfisrekstur í smærri borgum bæjum í Evrópu.

Félagið gerir sérleyfishöfum kleift að reka deilirafskútuleigu á sínu heimasvæði og fá þau þannig ábyrgð og hag af rekstrinum sjálf. Á tveimur árum er Hopp búið að opna 11 sérleyfi í þremur löndum með rúmlega 2.300 rafskútum. Hlutafjáraukningunni er ætlað að flýta fyrir vexti félagsins, fyrst og fremst með því að efla sölu- og markaðssetningu erlendis. Áform félagsins er að opna á 100 stöðum innan tveggja ára.

„Okkar markmið er að gera fyrir rafskútur það sem McDonalds gerði fyrir hamborgarann. Við viljum færa þessa tækni til minni borga þar sem er óplægður akur og fá heimamenn með okkur í lið. Við viljum deilihagkerfisvæða ferðavenjur fólks,” er haft eftir Eyþóri Mána Steinarssyni , framkvæmdastjóra Hopp.

Hopp hefur rekið þjónustu sína hérlendis síðan 2019 en það var stofnað af íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja. Stofnendur Aranja eru Ægir Giraldo Þorsteinsson, Eiríkur Heiðar Nilsson og Ragnar Þór Valgeirsson en þeir hafa meðal annars starfað fyrir Google, Facebook og Stanford háskóla.

Öll starfsemi Hopp á Íslandi fer fram án notkun jarðefnaeldsneytis og gerir félagið þessa sömu kröfu til rekstraraðila erlendis, ásamt öðrum umhverfis- og öryggiskröfum.

„Við erum að fjárfesta í breyttum umhverfisvænni ferðavenjum og deilihagkerfinu því það er framtíðin. Við teljum stórt tækifæri felast í aðferðafræði og mikilli þekkingu Hopp teymisins. Með myndarlegri fjárfestingu Brunns getur félagið hraðað vexti sínum erlendis”, segir Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures og nýr stjórnarmaður Hopp.