Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur ákveðið að taka til rannsóknar atvik er varða Covid-19 smit áhafnameðlima um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270.

Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu embættisins á samfélagsmiðlum.

Skipið kom til hafnar á Ísafirði á þriðjudaginn var. Af þeim 25 áhafnameðlimum sem voru um borð reyndust 22 smitaðir af covid-19.

Aðstæðum um borð hefur verið lýst sem skelfilegum.

Hefur útgerðin beðið áhöfnina afsökunar en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa sagt opinberlega að málið sé alvarlegt og megi aldrei endurtaka sig.

Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum miðar að því að afla upplýsinga og gagna um þá atburðarás sem varðar þessi smit og veikindi áhafnameðlima.

Að svo stöddu hefur enginn réttastöðu sakbornings, segir í tilkynningunni og jafnframt að ótímabært sé að gefa út frekari upplýsingar að sinni.