Leikir sem spilaðir eru í hóp njóta vaxandi vinsælda í Japan. Leikurinn Monster Hunter Freedom hefur nú selst í 7,4 milljónum eintaka, en kannanir hafa sýnt að tæplega helmingur þeirra sem spila hann spila með vinum sínum, en aðeins 18% aðspurðra höfðu aldrei spilað með öðrum (í multiplayer mode). Leikurinn hefur hins vegar ekki náð vinsældum utan Japan.

„Það er erfitt að festa hönd á ástæðunni, en þjóðarsálin hefur líklega eitthvað með þetta að gera. Japanir eru ekki miklir einfarar, leikir sem menn spila einir eru auðvitað vinsælir hér líka, en Monster Hunter er best að spila með vinum sínum“ hefur Guardian eftir Kenichi Chiba, greiningaraðila leikjaiðnaðar hjá Media Create.

Golfhermar njóta einnig vaxandi vinsælda í Japan, en fyrirtækið 3D framleiðir þá tegund þeirra sem er hvað vinsælust. Þeir hafa nú selt 50 golfherma, á rúmlega 29 þúsund pund stykkið (4.350.000 krónur), og búast við því að selja meira en hundrað á árinu.

„Flestir viðskiptavinir okkar eru menn sem spila golf en hafa aldrei spilað tölvuleiki“ segir eigandi golfbarsins Links, sem er í Tókýó í viðtali við Guardian.   Golfhermarnir notast við svipaða tækni og Nintendo Wii leikjatölvan. Leikmenn slá golfkúlu á skjá, en forritið reiknar svo út út frá því hvar kúlan hittir skjáinn og á hve miklum hraða hvar hún lendir.  Þetta þykir hin besta skemmtun og vinahópar flykkjast á golfbari til að spila saman sýndargolf.

„Í Japan verður lykilhugtakið hvað tölvuleiki varðar áfram samskipti. Það er ekkert vit í að spila einn í golfhermi. Það verður áfram markaður fyrir leiki sem menn spila einir, en líklega verður stærri markaður fyrir leiki sem ætlast er til að spilaðir séu með vinum og fjölskyldu“ sagði Chiba að lokum.