Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, staðfesti við Viðskiptablaðið í gær að félagið hafi tilkynnt til stéttarfélaga að hópuppsagnir séu í vændum. Hann vildi ekki tjá sig um hversu mörgum verður sagt upp. "Við erum bundin trúnaði um þessar upplýsingar og ég get ekki tjáð mig um hvernig þessum málum verður háttað."


Fréttastofa RÚV greindi frá því í gær að áætlað sé að um 80 starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur fái uppsagnarbréf á næstunni. Samkvæmt RÚV verða uppsagnarbréf send til starfsmanna fyrir næstu mánaðamót. Að öðru leyti liggi endanleg tala ekki fyrir né hvenær bréfin verði nákvæmlega send.


Um síðustu áramót voru starfsmenn Orkuveitunnar tæplega 580. Um það bil sjötta hverjum starfsmanni verður því sagt upp ef 80 starfsmenn fá uppsagnarbréf.

Erfið staða

Fjárhagsstaða OR hefur verið erfið allt frá því gengi krónunnar tók að falla í aðdraganda  falls bankanna. Um 20% af tekjum OR eru í erlendum myntum en 80% í íslenskum krónum. Skuldirnar eru hins vegar nær allar í erlendum myntum, þar helst evrum og dollurum. Skuldirnar hafa lækkað að undanförnu samhliða styrkingu krónunnar en þær eru þó enn alltof háar að mati forsvarsmanna OR. Þær eru nálægt 220 milljörðum í dag.

Ný stjórn OR, þar sem Haraldur Flosi Tryggvason er formaður, ákvað í september sl. að ráðast í sparnaðaraðgerðir sem jafngilda um tveggja milljarða sparnaði á ársgrundvelli. Reiknað er með því að sparnaðaraðgerðir sem Hjörleifur Kvaran, fyrrverandi forstjóri OR hafði forystu um að ráðast í upphafi árs, muni skila um 900 milljóna króna sparnaði undir lok þessa árs. Samkvæmt þeim áherslum sem Helgi Þór Ingason forstjóri kynnti fyrir stjórn er áhersla lögð á að verja grunnþjónustuhlutverk OR og draga úr kostnaði við önnur verkefni.

Einróma samþykkt

Stjórn OR samþykkti einróma bókun að loknum fundi í september, þar sem rætt var um fyrirhugaðar sparnaðaraðgerðir. "Í ljósi minnisblaðs og greinargerðar forstjóra um verklag við hagræðingu innan OR, lýsir stjórn OR ánægju með það víðtæka samráð og samstarf sem viðhaft er og lýsir stuðningi við áherslur forstjóra. Lögð er áhersla á að við aðgerðirnar sé gætt að kjarnaþjónustu fyrirtækisins og einföldun í skipulagi þess. Stjórn leggur traust sitt á að forstjóri og aðrir stjórnendur OR, sem gleggst þekkja til rekstursins, láti sanngirni, jafnrétti og önnur málefnaleg sjónarmið ráða för. Neyðist fyrirtækið til að grípa til svo sársaukafullra aðgerða að segja upp starfsfólki er brýnt að lögum sé fylgt í hvívetna og að gripið verði til mildandi mótvægisaðgerða," sagði í bókuninni.

Rekstur OR hefur, þrátt fyrir allt, gengið ágætlega á þessu ári í samanburði við síðasta ár og árið þar á undan. Tekjuflæði er sterkt en vandamálið öðru fremur lágt eiginfjárhlutfall. Þá hefur stjórn ákveðið að greiða ekki arð úr fyrirtækinu til eigenda, sem eru Reykjavíkurborg (94%), Akranes (5%) og Borgarbyggð (1%).