46 starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum hjá Arion banka. Þetta staðfestir talsmaður Arion banka í samtali við Viðskiptablaðið.

Í tilkynningu frá Arion banka kemur fram að „Í þessum hópi störfuðu 27 í höfuðstöðvum bankans en 19 á öðrum starfsstöðvum. Eftir breytingarnar starfa um 840 manns hjá Arion banka. Vinnumálastofnun hefur verið greint frá starfslokunum.“

Fólk kýs frekar að nota sér sjálfsafgreiðsluþjónustu

Ýmislegt í umhverfi bankans kallar á breytingar á starfsmenni, en að mati bankans er sú staðreynd veigamest að fjármálaþjónusta tekur umtalsverðum breytingum þessar mundir. Í því samhengi er sérstaklega nefnt að fólk kýs frekar að nýta sér sjálfsafgreiðsluþjónustu í ríkara mæli. „Notkun appsins og hraðbanka í útibúum bankans hefur margfaldast á undanförnum árum. Vegna þessa hefur spurn eftir afgreiðslu í útibúum bankans dregist saman um þriðjung á tveimur árum. Þessi þróun kallar á breytingar og eru samhliða gerðar skipulagsbreytingar í útibúum bankans, án þess þó að útibúum fækki.

Breytingarnar nú eru liður í víðtækari aðgerðum til hagræðingar í rekstri bankans. Þrátt fyrir umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir undanfarin ár og endurskipulagningu starfseminnar hefur fjöldi starfsmanna haldist nokkuð stöðugur vegna yfirtöku á öðrum fjármálafyrirtækjum og vegna aukinna umsvifa. Fækkun starfsfólks er þungbært skref að stíga en nauðsynlegt í ljósi breyttra áherslana í starfsemi bankans og ytri aðstæðna,“ segir að lokum í tilkynningunni.