„Það stendur ekki til að bjóða upp á hestaferðir enda eru hestaleig­ur þarna víða í kring,“ segir Guðmundur Ólason, sem kenndur hefur verið við fjárfestingarfélagið Milestone. Hann er einn fjárfesta sem undir forystu fjárfestingarsjóðsins Icelandic Tourism Fund 1 (ITF1) hefur keypt jörð­ina Ingólfshvol í Ölfusi. Fyrirhugað er að halda reglulegar hestasýningar að Ingólfshvoli, byggja þar upp veitingaþjónustu, minjagripasölu og ýmiskonar afþreyingu fyrir ferðamenn. Guðmundur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þessa.

Lands­bréf reka sjóðinn ITF1 en stærstu fjárfestar þar eru Icelandair Group og Landsbankinn auk nokkurra líf­eyrissjóða. Fjárfestahópurinn sam­anstendur af tæplega tíu aðilum.

Á Ingólfshvoli er ein stærsta reið­höll landsins auk töluverðs hest­húsapláss og veitingastaðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.