Hópur fjárfesta hefur samþykkt að taka yfir Fóðurblönduna og Bústólpa hf., sagði Eyjólfur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunnar í samtali við Viðskiptablaðið í gær. Hópurinn inniheldur Kaupfélag Borgfirðinga, Kaupfélag Héraðsbúa, Kaupfélag Skagfirðinga og Vátryggingafélag Íslands og getur verið að fleiri aðilar komi að kaupunum síðar, sagði Eyjólfur. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp, en hagnaður Fóðurblöndunnar var um 70 milljónir króna í fyrra.

Talsmaður Kaupfélags Skagfirðinga sagði kaupin á Fóðurblöndunni samræmast stefnu félagsins að auka hlutdeild kaupfélagsins í landbúnaði á landsvísu. Líklegt þykir að Fóðurblandan og Bústólpi verði sameinuð Áburðarverksmiðjunni og fóðursmiðjunni Vallhólmi og úr verði stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Aðal samkeppnisaðili hins nýja félags verður Mjólkurfélag Reykjavíkur.

Fóðurblandan var í eigu stofnenda til ársins 1984 er Holtabúið ehf. keypti meirihluta í félaginu . Árið 1997 var Fóðurblöndunni breytt í almenningshlutafélag og var félagið skráð í Kauphöll Íslands í framhaldi af því. Árið 2000 var fyrirtækið afskráð, þegar það var keypt af Eignarhaldsfélagi GB fóður ehf. og GIR Capital Investment. Árið 2001 keypti Búnaðarbankinn fyrirtækið með það í huga að það yrði síðan sameinað Mjólkurfélagi Reykjavíkur, en sameiningin var ekki heimiluð af Samkeppnisstofnun. Búnaðarbankinn var eigandi alls hlutafjár félagsins þar til fyrirtækið var selt í janúar 2003. Kaupandi var Hydrol ehf., sem einnig er eigandi Lýsis hf.