Á bilinu 10 til 20 manns sem meinað var að taka þátt í hlutafjárútboði Haga fyrir tæpum tveimur árum í aðdraganda skráningar félagsins í Kauphöll ætlar í mál gegn Arion banka. Ástæðan fyrir því að fólkið fékk ekki að taka þátt í útboðinu var sú að það bjó erlendis. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Opus lögmenni muni í byrjun október þingfesta mál á hendur bankanum fyrir hönd félagsins Hagavagnsins vegna útboðsins.

Borgar Þór Einarsson, lögmaður hópsins, segir í samtali við blaðið að fyrir höfnuninni sé ekki stoð í útboðsgögnum, verðbréfalýsingu eða auglýsingum og markaðsefni sem gefið var út fyrir útboðið. Hefði fjárfestunum verið tilkynnt að þeir mættu ekki taka þátt í útboðinu þegar þeir skráðu sig fyrir hlutabréfum hefðu þeir getað gripið til annarra ráða, s.s. keypt bréfin í gegnum félög sín sem skráð eru hér á landi.

Í hlutafjárútboði Haga keyptu um þrjú þúsund fjárfestar 30% hlut í Högum fyrir 4,9 milljarða króna. Mikil umframeftirspurn var eftir bréfunum í útboði fyrir almenna fjárfesta.

Borgar Þór útilokar ekki að fleiri taki þátt í hópmálssókninni en þeir 10 til 20 sem að henni standa þar til aðalmeðferð hefst.