Hópur lífeyrissjóða stefnir að því að gera tilboð í 45% hlut í Arion banka. Tilboðinu verður beint að Kaupþing sem á í dag um 87% hlut í Arion banka. ViðskiptaMogginn greinir frá þessu í dag.

Hópurinn samanstendur af flestum lífeyrissjóðum landsins, en hann var myndaður af frumkvæði þriggja stærstu lífeyrissjóða landsins, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Gildis. Viðræður hafa staðið yfir í nokkra mánuði en í þeim er þrýst á að í kjölfar kaupanna þá verði 5% hlutur í bankanum boðinn almenningi til kaups í almennu útboði.

Ef þetta verður raunin mun Kaupþing ennþá eiga um 37% hlut í bankanum en greint er frá því að losað verði um hlutinn í einu eða fleiri skrefum til fag- eða einkafjárfesta.

Skýr verðhugmynd er ekki komin í samningaviðræðunum. Bókfærð verð bankans eru tæpir 202 milljarðar og ef bankinn væri seldur á því verði myndu 45% hlutur vera verðlagður á 91 milljarð króna.