Hópur Pírata vinnur nú að efnahagsstefnu fyrir flokkinn. Ætlunin er að láta kjósa um það á félagsfundi hvort efnahagsstefnan verði tekin til umræðu á vefsvæði flokksins. Ef hún verður samþykkt þar verður hún formlega hluti af stefnu Pírata.

Píratar eru sá stjórnmálaflokkur sem nýtur mests fylgis á Íslandi samkvæmt skoðanakönnunum. Flokkurinn hefur hingað til ekki haft neina eiginlega stefnu í efnahagsmálum. Hann hefur þó samþykkt stefnu um ýmis sértæk mál á borð við gerð hagkerfisins , skuldamál og samkeppnismál .

Sex greinar

Hópur Pírata hefur nú fundað fjórum sinnum vegna málsins. Upptaka af síðasta fundi, sem fór fram í gær, er aðgengileg á Youtube-síðu Pírata . Þrettán manns mættu á fundinn í gær. Enginn þingmaður Pírata mætti, en Björn Leví Gunnarsson, varaþingmaður Birgittu Jónsdóttur, var á fundinum og ritaði fundargerð.

Afrakstur vinnu hópsins eru drög að efnahagsstefnu í sex liðum. Tekið skal fram að vinnu hópsins er ekki lokið, en eins staðan er núna hljóma greinarnar svona:

  • Til að vinna að hagsmunum almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið höfð að leiðarljósi í efnahagsmálum.
  • Lagaumhverfi skal stuðla að frelsi einstaklinga, jafnræði, nýsköpun og frjálsri samkeppni.
  • Ríkissjóður skal einungis safna afgangi eða skuldum í samræmi við langtímaáætlanir.
  • Fjárlög ríkisins skulu vera opin og gegnsæ.
  • Einstaklingar eiga að geta ákveðið hvert hluti af skattfé sem þeir greiða rennur.
  • Ríkissjóður skal forgangsraða í þágu almannahagsmuna og mannréttinda í ríkisfjármálum og áætlanagerð.

Fyrri drög að efnahagsstefnunni voru mun ítarlegri . Þar var meðal annars fjallað um að stefnt skuli að afnámi lögeyris og að ríkið skyldi ekki tryggja innistæður. Þá var ákvæði um að ríkið skyldi ekki reka aðra þá starfsemi en nauðsynleg getur talist til að stuðla að jöfnum tækifærum borgaranna.

Mismunandi skoðanir á orðalagi

Á fundinum í gær var farið yfir fjórar fyrstu greinarnar hér að ofan. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Björn Leví að hópurinn þurfi að endurskoða að minnsta kosti tvær þessara greina.

Spurður hvort einhver eða verulegur hluti meðlima hópsins megi teljast frjálshyggjumenn segist Björn telja að það skiptist til helminga. Hann tekur þó fram að það sé einungis ágiskun, enda beri fólk ekki stjórnmálaskoðanir sínar utan á sér. Sjálfur sé hann í því sem kalla megi jafnaðarhópinn.

Hann segir helsta skoðanamuninn innan hópsins snúa að orðalagi. „Þá erum við að passa að huga að jafnræði milli atvinnugreina, frjálsa samkeppni innan atvinnugreinar og hvort að frelsi einstaklinga sé viðeigandi innan þessarar greinar eða hvort það sé einhvers staðar annars staðar og þvíumlíkt. Þetta er í rauninni púsluspil,“ segir Björn.

Aðalmálið að stefnan sé sem skýrust

„Helsta togstreitan er held ég á milli klassískra hægri og vinstri „buzzwords“, sem sumir eru með ónæmi fyrir, á sitt hvorn veginn, og leggja mismunandi gildismat á þau orð. Það er pínu erfitt að ná ákveðnum markmiðum og reyna að forðast að nota þessi orð af því að við viljum vera nákvæm í því sem við erum að segja. Þegar þú leggur þetta fram, 30 einstaklinga stefnu, þá ofskilst það kannski og vanskilst eftir því hver les það. Það er aðalmálið, held ég, að gera þetta sem skýrast,“ segir hann.

Aðspurður segist Björn Leví telja að drögin að efnahagsstefnunni verði lögð fyrir flokkinn til samþykktar eftir einn til tvo mánuði. Ekkert sé þó ljóst í þeim efnum ennþá. Eins og áður segir þarf félagsfundur að samþykkja að drögin verði tekin til umræðu og samþykktar á vefsvæði Pírata.