Tólf manns hafa sagt upp störfum hjá A. Karlssyni ehf. að undanförnu. Að sögn Benedikts Olgeirssonar, framkvæmdastjóra Atorku, móðurfélags A. Karlssonar, komu uppsagnirnar í kjölfar óánægju þegar félögin A. Karlsson ehf., Besta ehf., á Íslandi og UAB Ilsanta í Litháen voru sameinuð 1. maí síðastliðinn. Í

Í kjölfar þess var gerður starfslokasamningur við fyrrverandi forstjóra A. Karlssonar og Linda Björk Gunnlaugsdóttir ráðin forstjóri sameinaðs félags. Benedikt sagði að fljótlega í kjölfar þess hefði farið að gæta óánægju meðal starfsmanna félagsins vegna þeirra breytinga sem staðið hefði til að og áðurnefndur hópur, sem samanstæði bæði af stjórnendum og starfsmönnum, hefði sagt upp.

Benedikt sagði að svo hefði virst sem þessi hópur hefði ekki viljað taka þátt í þeim óhjákvæmilegu breytingum sem þurft hefði að gera hjá félaginu. Hann sagði að lokið væri við að ráða í stað þeirra sem hefðu hætt og yrði tilkynnt um það í næstu viku. Aðspurður um hvort einhver viðskiptasambönd hefðu glatast sagði hann að það væri óverulegt en játaði aðspurður að fyrrverandi starfsmenn hefðu gert tilraunir til að hafa með sér sambönd þó slíkt væri óheimilt. Benedikt sagði að þetta hefði lítil áhrif á rekstur félagsins.

Fyrirtækin þrjú eru öll í tengdum rekstri. A. Karlsson ehf., sérhæfir sig í búnaði, rekstrarvörum og þjónustu við stofnanir á heilbrigðissviði, mötuneyti, hótel, veitingastaði og önnur fyrirtæki. Besta ehf., er með víðtækt vöruúrval og lausnir fyrir fyrirtæki með áherslu á hreinlætis- og rekstrarvörur. UAB Ilsanta er með víðtækt vöruúrval á heilbrigðissviði í Eystrasaltslöndunum þremur.

A. Karlsson ehf., og Besta ehf., hafa verið sameinuð hér á Íslandi en UAB Ilsanta í Litháen verður rekið sem dótturfyrirtæki sameinaðs fyrirtækis. Sameiginleg velta þessara fyrirtækja í dag er um 3 milljarðar króna og í þeim starfa um 100 starfsmenn.