Tyggigúmmí með súkkulaðibragði er nýjasta hugdetta Cadbury, stærsta súkkulaðiframleiðanda heims. Tyggigúmmísmarkaður Bretlands hefur hingað til verið yfirráðasvæði Wrigley en Cadbury vilja nú auka hlutdeild sína í honum, samkvæmt frétt Reuters.

Cadbury ætla sér að markaðssetja súkkulaði-tyggjó í næsta mánuði undir slagorðinu „nautn án samviskubits.“ Á undanförnum 18 mánuðum hefur Cadbury náð 10% markaðshlutdeild á tyggigúmmísmarkaði Bretlands, en áður hafði Wrigley 98% markaðshlutdeild.

Nýjasta útspil Cadbury er tyggigúmmí með myntubragði, fyllt með vökva með súkkulaðibragði sem bíður neytandans í miðjunni. Að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins er súkkulaðibragð af vörunni til að byrja með en eftir það kemur myntubragð sem endist lengi.